Plastfljótið - listmenntun til sjálfbærni
Plastfljótið - listmenntun til sjálfbærniPlastfljótið-listmenntun til sjálfbærni er meistararitgerð ÓBB frá Listkennsludeild LHÍ vorið 2016.
„Markmið verkefnisins er að benda á leiðir um það hvernig má nýta listsköpun til þess að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi sjálfbærrar þróunar og reyna með því að leita leiða til að minnka vistspor okkar hér á jörðu og vernda náttúruna. Með verkefninu er leitast við að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plastumbúða og um leið hvatning til aðgerða í þeim málum“.
Í meistaraverkefninu er skoðað hvort og hvernig listsköpun getur nýst sem afl til aðgerða þegar kemur að því að leysa vandamál sem við stöndum frammi fyrir og varða umhverfi okkar, líf og starf. Markmiðið er að benda á leiðir um það hvernig má nýta listsköpun til þess að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi sjálfbærrar þróunar og reyna með því að leita leiða til að minnka vistspor okkar hér á jörðu og vernda náttúruna. Megin aðferðafræði verkefnisins byggir á menntun til sjálfbærni, grenndarnámi og þátttökulist en einnig er komið inn á samþættingu námsgreina og þverfaglega nálgun í námi. Þær aðferðir sem hér um ræðir miða sérstaklega að tengingu nemenda við eigin menningarheim og umhverfi og lagt er upp með að þeir átti sig á eigin getu til aðgerða, geti haft áhrif á það sem gerist í samfélaginu. Þátttökulistaverk af þeim toga sem hér um ræðir getur einnig stuðlað að því að brjóta niður múra og brúa bil á milli kynslóða. Gerð er ítarleg grein fyrir verkefninu Plastfljótið - listmenntun til sjálfbærni, sem eins konar pilot verkefni sem miðar að þessum gildum. Með verkefninu er leitast við að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plastumbúða og um leið hvatning til aðgerða í þeim málum. Verkefnið er unnið í takt við lykilhæfni nýrrar aðalnámskrár með sérstakri áherslu á þær námsleiðir sem þykja vænlegar til árangurs þegar kemur að menntun til sjálfbærni og ríma um leið við mína eigin starfskenningu. Stuðst er við námsviðmið sem tekur á sjö þáttum sem tengja má saman í þeim tilgangi að greina menntun til sjálfbærni. Þar er stöðugt verið að huga að spurningunum um það hvað sé verið að kenna, hvernig það sé gert og hvers vegna.